Við sáum Mýrina á Deus ex cinema sýningu í kvöld. Þetta er mögnuð mynd, með betri íslenskum myndum sem ég hef séð á árinu. Handrit skrifar Baltasar Kormákur, eftir skáldsögu Arnalds Indriðasonar. Hann leikstýrir einnig og ekki verður annað sagt en að honum farist það vel úr hendi. Leikararnir standa sig almennt vel, Ingvar er pottþéttur í hlutverki Erlends, Ólafía Hrönn flott og Björn Hlynur einnig, svo nokkur dæmi séu tekin.

Myndin geymir áhugaverð trúar- og siðferðisstef. Á kross sem markar leiði ungrar stúlku eru letruð orð úr Davíðssálmi, þau les Erlendur einnig upp úr Biblíunni. Það væri fróðlegt að skoða myndina alla í ljósi þessa og velta fyrir sér hvaða ljósi tilvitnunin gæti varpað á heildina. Annars finnst mér meginþemun kannski tvö: Spurningin um syndir feðranna sem bitna á börnunum og í framhaldi af því hin almenna spurning um foreldra og börn. Til að mynda má segja að málið sem Erlendur og félagar rannsaka í Mýrinni varpi áhugaverðu ljósi á samskipti hans við dótturina Evu Lind (sem Ágústa Eva leikur bara býsna vel).

Ef ég ætti að gagnrýna myndina þá væri það kannski helst fyrir tónlistina, hún er notuð til að undirstrika tilfinningaþunga, en stundum verður hún svo áberandi að athygli áhorfandans beinist fremur að henni en því sem er að gerast í myndinni.

Það var gaman að sjá Mýrina í bíó. Salurinn var þéttsetinn og maður átti allt eins von á því að bíógestir klöppuðu að sýningu lokinni (þeir gerðu það nú samt ekki), slík var stemningin í salnum. Það verður gaman að sjá hvort ekki verður framhald á þessu.4 ummæli við „Mýrin (Baltasar Kormákur: 2006)“

 1. Þorkell ritaði:

  Og þá vona ég að þeir kvikmyndi Grafarþögn. Uppáhaldsbók mín eftir Arnald.

 2. Árni svaraði:

  Hún var ferlega góð fannst mér, tek undir það að spennandi væri að sjá hana á hvíta tjaldinu.

 3. björgvin ritaði:

  hvernig get ég komið mér í samband við Baltasar hef gott verkefni handa honum sem mun vekja mikla lukku til víða landa

  kveðja Björgvin

 4. Árni svaraði:

  Þú verður að spyrja einhvern annan en mig að því :)