Einn, einn, tveir, þrjátíu, tveir
8. júní 2007
Ég fékk símtal í vikunni frá góðum samstarfsmanni sem gerði mér tilboð sem erfitt var að afþakka: „Við verðum með skyndihjálparnámskeið á morgun og það er laust pláss, viltu ekki taka þátt?“ Ég þakkaði fyrir og sló til og sat á skólabekk í Neskirkju eftir hádegi.
Skýr og skeleggur leiðbeinandi (sem starfar einnig sem slökkviliðsmaður) fræddi okkur um fyrstu hjálp og rétt viðbrögð. Hann kenndi okkur hjartahnoð og blástursaðferð. Nýjasta nýtt í þeim efnum eru talnaparið þrjátíu tveir: Hnoða þrjátíu sinnum, blása tvisvar.
Ég tók annars eftir einu sem mér fannst nokkuð snjallt. Á flestum af glærunum sextíu sem hann hafði í farteskinu mátti finna þrjár lykiltölur sem allir ættu að kunna og enginn má gleyma á ögurstundu: 1 1 2.