Það hefur verið heilmikið bloggað um páskaprédikun biskups:

Mér sýnist sem flestir staldri við það sem hann segir um umhverfismálin, en nokkrir (Stefán Einar og Björn) fjalla um þriðja hluta prédikunarinnar þar sem biskup talar um trú og vantrú.

Bloggað um myndlestur

8. mars 2007

Guðbjörg H. Kolbeins, fjölmiðlafræðingur og stundakennari í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, skrifaði færslu um forsíðu á auglýsingablaði Smáralindar í gær (hún er ekki lengur aðgengileg á blogginu hennar og engin skýring fylgir með þegar þess orð eru færð til bloggs). Bloggfærslan hefur kallað fram töluverð viðbrögð á öðrum bloggum og hefur verið harkalega gagnrýnd. Mig langar að halda þessu til haga þar sem ég held að það birti áhugaverða mynd af íslenska bloggsamfélaginu:

Það er langur svarhali við bloggfærslu Guðmundar Steingrímssonar sem gefur nánari innsýn í umræðuna. Þar - og reyndar á fleiri stöðum - er nefnt að bloggfærsla Guðbjargar niðurlægi fyrirsætuna á myndinni. Þar kann að vera fundin ástæða þess að færslan var fjarlægð af blogginu.

Svarhalinn við færslu Katrínar Önnu Guðmundsdóttur gefur innsýn í það hvernig umræðan þróaðist síðar.

Meira bætist örugglega við og vísanir á eitthvað af því kunna að rata hingað inn.

Ps. Það sem okkur vantar hér á landi - inn í bloggsamfélagið - er einhver leið til að halda utan um svona umræðu sem fer fram á mörgum bloggum. Sá sem vill fylgjast með því sem er heitt í umræðunni gæti þannig farið inn á eina yfirlitssíðu sem vísaði honum á marga bloggara. Slíkt myndi gagnast öllum aðilum: Bæði þeim sem vilja blogga um tiltekin mál og taka þátt í svona umræðu og hinum sem vilja fylgjast með.

Pps. Vísanirnar eru flestar fengnar af bloggunum sjálfum, en sumar eru sóttar á önnur blogg. Það gildir t.d. um vísunina á Fréttablaðsfréttina sem ég fann hjá Salvöru.

Erindi Jean Kilbourne (myndbandið sem fylgir færslunni sýnir líklega bara einn hluta þess) um ímynd kvenna og táningsstúlkna í auglýsingum er holl áminning. Það kallast sumpart á við umræðu um forsíðu nýja Smáralindarblaðsins (sjá næstu færslu - upphafleg vísun var á bloggfærslu sem var tekin út af vefnum).

Sjá nánar á Mediaed vefnum.

Leiðarhnoð

3. mars 2007

Ríki og kirkja

16. febrúar 2007

Sunnudaginn 18. febrúar mun dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson flytja fræðsluerindi á undan messu í Hallgrímskirkju um Ríki og kirkju, en það er heiti bókar sem hann gaf út fyrir áramót.

Rick Warren er höfundur metsölubókarinnar Purpose Driven Life og prestur í Saddleback Church. Hann flutti fyrirlestur á vefum TED í febrúar 2006 sem hægt er að skoða á Google Video.

Bókin hans hafði selst í 30 milljón eintökum þegar hann flutti erindið (líklega eitthvað meira síðan). Ég hef ekki lesið hana, en hún hefur verið nokkuð áberandi í mörgum guðfræðibókabúðum sem ég hef heimsótt erlendis.

Ps. Á Google Video er að finna mörg TED erindi til viðbótar, enn meira er á TED-vefnum. Margt af þessu er afar áhugavert.

Bloggað með Word

22. janúar 2007

Ég var að setja Office 2007 upp á vélinni minni. Einn fítusinn í hinni nýju útgáfu af Word er sá möguleiki að skrifa bloggfærslur og birta þær á blogginu þínu. Ef þessi færsla birtist á blogg.is blogginu mínu virkar þetta.

Biblían og bíóið

21. janúar 2007

Á fimmtudaginn hefst ráðtsefna sem Kaupmannahafnarháskóli stendur fyrir undir yfirskriftinni Biblical Variations in Contemporary Cinema. Þar munu þrír meðlimir Deus ex cinema flytja erindi: Þorkell ætlar að fjalla um Edensstef í kvikmyndum, Arnfríður um píslarsögu Gibsons og ég ætla að ræða um hjálpræðisstef í kvikmyndum.

Ég er nokkuð spenntur fyrir þessar ráðstefnu því þess má vænta að þarna verði nokkuð góð umræða um þessi fræði. Meðal þátttakenda eru nefnilega fræðimenn sem hafa sent frá sér afar áhugaverðar bækur á undanförnum árum (t.d. Christopher Deacy og Gerard Loughlin). Ef tækifæri gefst til að færa eitthvað til annáls meðan ég er úti ratar það örugglega hingað inn.

Vísanablogg

21. janúar 2007

Ég hef notað Google Reader til að lesa RSS-veitur um nokkra hríð. Eitt af því sem er gagnlegt við það vefforrit eru flýtileiðirnar (j fer í næstu færslu, k í fyrri færslu, s merkir færsluna og shift+s deilir henni með öðrum). Í kvöldi setti ég vísun á vísanabloggið sem GR útbýr sjálfkrafa svo að menn geti nú skoðað það. Þarna eru aðallega færslur um guðfræði, en eitthvað annað leynist kannski inn á milli ;)

Ögrandi Bakkynjur

12. janúar 2007

Við Davíð bróðir sáum leikritið Bakkynjur á dögunum. Ég hafði ekki miklar væntingar til verksins því þessi uppsetning Þjóðleikhússins hefur fengið misjafna dóma og aðsókn verið dræm. Það er því gaman að segja frá að leikritið kom skemmtilega á óvart. Bæði framsetning (eða form) og efnistök vöktu spurningar og ögruðu - og til þess er leikurinn kannski gerður!
Framsetningin er óvenjuleg og hún minnti mig einna helst á upplifunina af því að sjá Tout va bien eftir Godard í fyrsta skipti. Leiksviðið er lifandi og athygli áhorfandans beinist aftur og aftur að framsetningunni sjálfri (og frá efniviði leikritsins sjálfs). Maður er sér fyllilega meðvitaður um að þetta er leikrit. Meðvitundin um það þótti mér sterkari en í mörgum leikritum sem ég hef séð á undanförnum árum.

Framsetningin er líka ögrandi og jafnvel truflandi. Þannig eru Bakkynjurnar sjálfar alltaf á sviðinu, ýmist í forgrunni sem persónur eða í bakgrunni sem hluti af sviðsmynd eða umgjörð. Og ekki eru þær alltaf þögular, kliðurinn í þeim keppir um athygli við einræður eða samræður annarra persóna. Mér fannst á köflum sem þær væri hinar raunverulegu aðalpersónur leikritsins, en ekki guðinn Díónýsos eða konungurinn Penþeifur.
Einu má bæta við um framsetninguna: Mér fannst stundum sem ég væri að horfa á söngleik en ekki hefðbundið leikrit. Þannig bresta Bakkynjurnar a.m.k. einu sinni í söng og dans upp úr þurru og þær eru á sífelldu iði. Reyndar minnti framlag þeirra mig stundum meira á nútímadansverk en leikrit. Íslenski dansflokkurinn mætir Þjóðleikhúsinu. Þar er kannski komin önnur áhugaverð formtilraun.
Ég tel að efni þessa leikrit Evrípídesar geti kallast skemmtilega á við samtímann. Inntak þess má kannski draga saman í einni setningu: Það er kominn nýr guð í bæinn og þér er hollast að lúta honum, annars hefurðu verra af …
Það er einmitt þessi spurning um kröfu guðsins (eða guðlega kröfu) um dýrkun og undirliggjandi hótun hans um hefnd gagnvart hverjum sem smánar hann sem er svo áhugaverð í samtímanum. Ekki endilega út frá kristinni trú heldur út frá hverju því sem krefst skilyrðislausrar hollustu. Í leikritinu sjáum við svo eitt dæmi um slíka smánun og grimmilega hefnd. Þar er sannarlega gengið alla leið.

Ég held að það megi alveg mæla með Bakkynjum, ekki síst fyrir þá sem hafa áhuga á formi, en leikhúsgestir skyldu vera sér meðvitaðir um að framsetningin er allt annað en hefðbundin og á köflum nokkuð tyrfin.