Ég fékk símtal í vikunni frá góðum samstarfsmanni sem gerði mér tilboð sem erfitt var að afþakka: „Við verðum með skyndihjálparnámskeið á morgun og það er laust pláss, viltu ekki taka þátt?“ Ég þakkaði fyrir og sló til og sat á skólabekk í Neskirkju eftir hádegi.

Skýr og skeleggur leiðbeinandi (sem starfar einnig sem slökkviliðsmaður) fræddi okkur um fyrstu hjálp og rétt viðbrögð. Hann kenndi okkur hjartahnoð og blástursaðferð. Nýjasta nýtt í þeim efnum eru talnaparið þrjátíu tveir: Hnoða þrjátíu sinnum, blása tvisvar.

Ég tók annars eftir einu sem mér fannst nokkuð snjallt. Á flestum af glærunum sextíu sem hann hafði í farteskinu mátti finna þrjár lykiltölur sem allir ættu að kunna og enginn má gleyma á ögurstundu: 1 1 2.

Dýrmætar stundir

28. maí 2007

Ég og yngri dóttirin eigum saman dýrmætar stundir á hverju kvöldi þegar hún fer að sofa. Þegar mamman hefur boðið góða nótt og kysst á koll förum við saman inn í herbergi dætranna. Þar legg ég litlu hnátuna í rúmið, signi okkur og fer með kvöldbænirnar. Svo er kysst lauslega á ennið, stúlkunni strokið um kollinn og boðin góð nótt. Og hún snýr sér á hliðina, en ég sest upp í hitt rúmið með bók í hendi. Oftast les ég einn kafla, en litla hnátan er nú samt sofnuð eftir fyrstu tvær blaðsíðurnar.

Risessumyndir

20. maí 2007

Við tókum nokkrar myndir þegar við eltum Risessuna um Reykjavíkurborg.

Lesa restina af færslunni »

Forréttindi I

13. janúar 2007

Að upplifa frelsi og fögnuð hjá fimm mánaða unga sem uppgötvar dag einn að hún hefur mjaðmarlið og eygir þann möguleika að geta hreyft sig enn meira úr stað.

Það eru forréttindi foreldrisins.

Við erum stödd í hefðbundnu eldhúsi íslenskrar vísitölufjölskyldu (mamma, pabbi, tvö börn). Pabbinn og eldri dóttirin eru komin í úlpurnar og eru að reima á sig skóna. Mamman situr við eldhúsborðið og flettir morgunblaði. Þetta samtal á sér stað:

Mamman: Já, það er dagur íslenskrar tungu.

Pabbin: [Á erlendri tungu, svo dóttirin skilji ekki]: Einmitt, þess vegna vildi ég kaupa bók handa hnátunni.

Dóttirin: Tungu … [Ullandi] ég er með tunguna svona …

Mamman: Ég átti við tungumálið.