Le Montage

15. nóvember 2006

Afar áhugaverð stuttmynd.

Við sáum Mýrina á Deus ex cinema sýningu í kvöld. Þetta er mögnuð mynd, með betri íslenskum myndum sem ég hef séð á árinu. Handrit skrifar Baltasar Kormákur, eftir skáldsögu Arnalds Indriðasonar. Hann leikstýrir einnig og ekki verður annað sagt en að honum farist það vel úr hendi. Leikararnir standa sig almennt vel, Ingvar er pottþéttur í hlutverki Erlends, Ólafía Hrönn flott og Björn Hlynur einnig, svo nokkur dæmi séu tekin.

Myndin geymir áhugaverð trúar- og siðferðisstef. Á kross sem markar leiði ungrar stúlku eru letruð orð úr Davíðssálmi, þau les Erlendur einnig upp úr Biblíunni. Það væri fróðlegt að skoða myndina alla í ljósi þessa og velta fyrir sér hvaða ljósi tilvitnunin gæti varpað á heildina. Annars finnst mér meginþemun kannski tvö: Spurningin um syndir feðranna sem bitna á börnunum og í framhaldi af því hin almenna spurning um foreldra og börn. Til að mynda má segja að málið sem Erlendur og félagar rannsaka í Mýrinni varpi áhugaverðu ljósi á samskipti hans við dótturina Evu Lind (sem Ágústa Eva leikur bara býsna vel).

Ef ég ætti að gagnrýna myndina þá væri það kannski helst fyrir tónlistina, hún er notuð til að undirstrika tilfinningaþunga, en stundum verður hún svo áberandi að athygli áhorfandans beinist fremur að henni en því sem er að gerast í myndinni.

Það var gaman að sjá Mýrina í bíó. Salurinn var þéttsetinn og maður átti allt eins von á því að bíógestir klöppuðu að sýningu lokinni (þeir gerðu það nú samt ekki), slík var stemningin í salnum. Það verður gaman að sjá hvort ekki verður framhald á þessu.

Oh, Karma Where Art Thou er tólfti þátturinn í fyrstu ártíð af My Name is Earl. Hann er áhugaverður fyrir þær sakir að þarna er kastljósinu beint að Karma-fyrirbærinu með beinum hætti. Ég er ekki frá því að þetta sé í fyrsta skipti sem ég sé slíkar vangaveltur í þáttunum. Earl veltir fyrir sér hvers vegna yfirmaður á matsölustað hafi það gott þegar haft er í huga hversu slæmur maður hann sé. Hann sér sig svo sjálfan sem verkfæri í höndum þess ópersónulega máttar sem karma er (hans lýsing). Það væri gaman að taka þennan fyrir í umfjöllun um þættina síðar.

Á vef Gordon Lynch er sagt frá áhugaverðri ráðstefnu sem verður haldin í Oxford, 2.-4. apríl á næsta ári:

This will be one of the first major national conferences in the area of media, religion and culture to be held in the UK. Organised by the Department of Theology and Religion at Birmingham University, in conjunction with the British Sociological Association Sociology of Religion Study Group and the UK Research Network for Theology, Religion and Popular Culture, this will be an important event for presenting leading research in the field and for meeting other researchers working in this area. Speakers already confirmed include Prof Lynn Schofield Clark (author of ‘From Angels to Aliens: Teenagers, the Media and the Supernatural’) and Prof Tom Beaudoin (author of ‘Virtual Faith: The Irreverent Spiritual Quest of Generation X’). More details will be made available later this year, but email me if you have any queries about it in the mean-time.

Sigríður Pétursdóttir, kvikmyndafræðingur, flytur endrum og sinnum pistla um kvikmyndir í Víðsjá. Í dag mátti til dæmis heyra hana ræða um rauðan þráð í kvikmyndum sem hún sá á hatíðinni: Einangrun og nánd (þessi vísun er á upptökuna, ég veit ekki hversu lengi hún virkar). Í gær var spilað viðtal við kvikmyndagagnrýnandann Gerald Peary sem Sigríður tók á miðvikudaginn í síðustu viku.

Mér þykir þessi umfjöllun um kvikmyndir í Víðsjá til mikillar fyrirmyndar - og raunar er það ekki aðeins Sigríður sem hefur staðið að þessu í þættinum. Til viðbótar má bæta því við að mér finnst Víðsjá vera einhver áhugaverðasti þátturinn í íslensku útvarpi um þessar mundir.

En.

Hvenær fáum við eiginlega metnaðarfullan þátt um kvikmyndir sjónvarp? Þátt í anda sænsku Filmkrönikunnar þar sem fer fram fræðsla um kvikmyndafræði í bland við umfjöllun um nýjar og gamlar kvikmyndir.