Biblían og bíóið

21. janúar 2007

Á fimmtudaginn hefst ráðtsefna sem Kaupmannahafnarháskóli stendur fyrir undir yfirskriftinni Biblical Variations in Contemporary Cinema. Þar munu þrír meðlimir Deus ex cinema flytja erindi: Þorkell ætlar að fjalla um Edensstef í kvikmyndum, Arnfríður um píslarsögu Gibsons og ég ætla að ræða um hjálpræðisstef í kvikmyndum.

Ég er nokkuð spenntur fyrir þessar ráðstefnu því þess má vænta að þarna verði nokkuð góð umræða um þessi fræði. Meðal þátttakenda eru nefnilega fræðimenn sem hafa sent frá sér afar áhugaverðar bækur á undanförnum árum (t.d. Christopher Deacy og Gerard Loughlin). Ef tækifæri gefst til að færa eitthvað til annáls meðan ég er úti ratar það örugglega hingað inn.

Vísanablogg

21. janúar 2007

Ég hef notað Google Reader til að lesa RSS-veitur um nokkra hríð. Eitt af því sem er gagnlegt við það vefforrit eru flýtileiðirnar (j fer í næstu færslu, k í fyrri færslu, s merkir færsluna og shift+s deilir henni með öðrum). Í kvöldi setti ég vísun á vísanabloggið sem GR útbýr sjálfkrafa svo að menn geti nú skoðað það. Þarna eru aðallega færslur um guðfræði, en eitthvað annað leynist kannski inn á milli ;)

Í Journal of Religion and Popular Culture er að finna tvær áhugaverðar greinar um kristsgervinga í kvikmyndum:

Grein Deacy er skrifuð sem svar við grein Kozlovic svo það gæti verið gagnlegt að lesa þær saman.

Forréttindi I

13. janúar 2007

Að upplifa frelsi og fögnuð hjá fimm mánaða unga sem uppgötvar dag einn að hún hefur mjaðmarlið og eygir þann möguleika að geta hreyft sig enn meira úr stað.

Það eru forréttindi foreldrisins.

Ögrandi Bakkynjur

12. janúar 2007

Við Davíð bróðir sáum leikritið Bakkynjur á dögunum. Ég hafði ekki miklar væntingar til verksins því þessi uppsetning Þjóðleikhússins hefur fengið misjafna dóma og aðsókn verið dræm. Það er því gaman að segja frá að leikritið kom skemmtilega á óvart. Bæði framsetning (eða form) og efnistök vöktu spurningar og ögruðu - og til þess er leikurinn kannski gerður!
Framsetningin er óvenjuleg og hún minnti mig einna helst á upplifunina af því að sjá Tout va bien eftir Godard í fyrsta skipti. Leiksviðið er lifandi og athygli áhorfandans beinist aftur og aftur að framsetningunni sjálfri (og frá efniviði leikritsins sjálfs). Maður er sér fyllilega meðvitaður um að þetta er leikrit. Meðvitundin um það þótti mér sterkari en í mörgum leikritum sem ég hef séð á undanförnum árum.

Framsetningin er líka ögrandi og jafnvel truflandi. Þannig eru Bakkynjurnar sjálfar alltaf á sviðinu, ýmist í forgrunni sem persónur eða í bakgrunni sem hluti af sviðsmynd eða umgjörð. Og ekki eru þær alltaf þögular, kliðurinn í þeim keppir um athygli við einræður eða samræður annarra persóna. Mér fannst á köflum sem þær væri hinar raunverulegu aðalpersónur leikritsins, en ekki guðinn Díónýsos eða konungurinn Penþeifur.
Einu má bæta við um framsetninguna: Mér fannst stundum sem ég væri að horfa á söngleik en ekki hefðbundið leikrit. Þannig bresta Bakkynjurnar a.m.k. einu sinni í söng og dans upp úr þurru og þær eru á sífelldu iði. Reyndar minnti framlag þeirra mig stundum meira á nútímadansverk en leikrit. Íslenski dansflokkurinn mætir Þjóðleikhúsinu. Þar er kannski komin önnur áhugaverð formtilraun.
Ég tel að efni þessa leikrit Evrípídesar geti kallast skemmtilega á við samtímann. Inntak þess má kannski draga saman í einni setningu: Það er kominn nýr guð í bæinn og þér er hollast að lúta honum, annars hefurðu verra af …
Það er einmitt þessi spurning um kröfu guðsins (eða guðlega kröfu) um dýrkun og undirliggjandi hótun hans um hefnd gagnvart hverjum sem smánar hann sem er svo áhugaverð í samtímanum. Ekki endilega út frá kristinni trú heldur út frá hverju því sem krefst skilyrðislausrar hollustu. Í leikritinu sjáum við svo eitt dæmi um slíka smánun og grimmilega hefnd. Þar er sannarlega gengið alla leið.

Ég held að það megi alveg mæla með Bakkynjum, ekki síst fyrir þá sem hafa áhuga á formi, en leikhúsgestir skyldu vera sér meðvitaðir um að framsetningin er allt annað en hefðbundin og á köflum nokkuð tyrfin.

Hver sem hefur sérþekkingu

10. janúar 2007

Í viðtali um Vinaleiðina í þættinum Ísland í bítið var Reynir Harðarson spurður um það hver mætti tala við börn innan skólans. Hann nefndi nokkrar stéttir, s.s. námsráðgjafa og listmeðferðarfræðinga og sagði svo:

“… hver sem hefur sérþekkingu á því að ræða við börn. Prestar og djáknar hafa það ekki.”