Á mbl.is og vísi.is má nú lesa frétt um Íslending ársins skv. tímaritinu Ísafold. Það er bloggarinn Ásta Lovísa, einstæð þriggja barna móðir sem berst við krabbamein. Um leið og ég óska henni til hamingju með nafnbótina og fagna því fyrir hönd bloggsamfélagsins að nafnbót sem þessi falli bloggara í skaut þá vil ég lýsa vonbrigðum mínum með það að hvorugur vefmiðillinn vísi í bloggið hennar í fréttinni. Vonandi verður bætt úr því fljótlega.

Ps. Bloggið hennar er á www.123.is/crazyfroggy.

Ummælasiðferði

26. desember 2006

Á SvN velta menn fyrir sér hvernig á því standi að umræða í ummælum á bloggum sé oft svo óöguð. Ég held að ástæðan sé ekki eingöngu nafnleysið, heldur hafi þetta eitthvað að gera með lægri þröskulda almennt. Þarf að spá aðeins betur í það.

Kirkjan og Íraksstríðið

26. desember 2006

Matthías Ásgeirsson spurði um yfirlýsingar kirkjunnar um Íraksstríðið í ummælum við pistil eftir Úlfar Guðmundsson á trú.is. Ég tók saman stutt yfirlit sem fær líka að rata hingað inn.Biskup tók Íraksstríðið fyrir í nýársprédikun sinni 2003:

Á morgni nýja ársins eru ófriðarblikur við sjóndeildarhring. Enn virðist sem ofurtrú manna á mátt hernaðar og valdbeitingar til að leysa vanda hnýti enn fastar þá hnúta sem fjötra heilu þjóðfélögin í vítahring ofbeldis, kúgunar og hermdaverka. Ávextirnir eru skelfing og dauði sem jörðinni spillir og lífinu ógnar. Það er sem ljósár aðskilji menningarheima og enn eykst gjáin milli ríkra og snauðra á okkar auðugu jörð. Enn er manndráp og neyðarkvein hlutskipti milljóna manna. Enn þetta ár, ef svo fer fram sem horfir, enn þetta ár. Kirkjuleiðtogar um víða veröld vara eindregið við stríði við Írak og hvetja til þess að reynt sé til þrautar að finna lausn friðar og réttlætis. Þar má nefna Jóhannes Pál páfa og forystumenn kirkna og kirknasambanda austan hafs og vestan. Ég hvet íslenska þjóð og kirkju að taka undir með þeim. Höldum fast í vonina um frið og réttlæti í samskiptum þjóða og trúarbragða, vinnum og biðjum að sú von rætist.

Hann sendi líka frá sér yfirlýsingu vegna stríðsins í mars 2003:

Við hörmum að enn skuli gripið til vígtólanna og þau látin skera úr deilumálum. Það er mikill ósigur fyrir mannkynið og vonir okkar um nýja heimsskipan þar sem siðgæðisleg megingildi væru í heiðri höfð, virðing fyrir alþjóðalögum, réttlæti og frelsi, mannúð og mildi.

Um svipað leyti var tekið saman yfirlit yfir starf kirkjunnar í þágu friðar.

Og svo samþykkti Prestastefna ályktun vegna stuðnings íslenskra stjórnvalda við stríðið í Írak.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni og gefi þér innsýn í það hvernig kirkjan hér á landi nálgaðist þetta stríð.