Már Örlygsson komst af því að eiginkona hans og (þar með) börnin tvö voru ranglega skráð í trúfélag. Yfirskrift færslunnar hans er Þjóðkirkjan át börnin mín. Og hann spyr hve margir séu skráðir í Þjóðkirkjuna án þess að vita af því? Tvennt má nefna í þessu samhengi:

  • Þjóðkirkjan sér ekki um skráningu í trúfélög og það er því eðlilegra að tala um að Hagstofan (og nú Þjóðskrá) beri ábyrgð á þessum mistökum. Þjóðkirkjan er líklega jafn grandlaus og Már gagnvart skráningu konu hans og barna.
  • Röng skráning bitnar á öllum trúfélögum (og Háskólanum líka), ekki bara Þjóðkirkjunni. Það væri fróðlegt að vita hversu margir eru ranglega skráðir í hana, en líka hversu margir eru ranglega skráðir í önnur trúfélög (ég þekki áhugaverð dæmi um hvort tveggja). Mér vitanlega hefur þó engin rannsókn verið gerð á þessu.

Englar í kvikmyndum

25. nóvember 2006

Í A Prairie Home Companion er að finna einn áhugaverðasta engil sem ég hef séð í kvikmynd nýlega (ég þarf að horfa aftur á myndina og skoða það betur). Það væri annars gaman að taka saman yfirlit yfir áhugaverða engla í kvikmyndum. Í þeim tilgangi mega lesendur annálsins gjarnan deila með okkur sínum uppáhalds-kvikmynda-englum …

Við erum stödd í hefðbundnu eldhúsi íslenskrar vísitölufjölskyldu (mamma, pabbi, tvö börn). Pabbinn og eldri dóttirin eru komin í úlpurnar og eru að reima á sig skóna. Mamman situr við eldhúsborðið og flettir morgunblaði. Þetta samtal á sér stað:

Mamman: Já, það er dagur íslenskrar tungu.

Pabbin: [Á erlendri tungu, svo dóttirin skilji ekki]: Einmitt, þess vegna vildi ég kaupa bók handa hnátunni.

Dóttirin: Tungu … [Ullandi] ég er með tunguna svona …

Mamman: Ég átti við tungumálið.

Fréttabrot

15. nóvember 2006

Ég settist til tilbreytingar framan við sjónvarpið í kvöld og horfði á þátt sem var á dagskrá á Rúv. Þátturinn heitir Broken News og er með athyglisverðari þáttum sem ég hef séð upp á síðkastið. Það var einkum tvennt sem ég var hrifinn af:

  • Klippingin í þáttunum. Myndskeið eru frekar stutt og það er klippt úr einu “atriði” í annað á þannig hátt að það minnir helst á sjónvarpsáhorfanda sem flettir milli fréttarása. Mjög skemmtileg gert.
  • Það hvernig snúið var upp á þekktar fréttir (t.d. af gereyðingarvopnum í Írak) og i raun grafið undan þeim með því að snúa fréttaflutningnum upp á annað (í þættinum sem ég sá var fjallað um meint kjarnorkuvopn í Bólivíu).

Le Montage

15. nóvember 2006

Afar áhugaverð stuttmynd.